Enski boltinn

Evra segir að Suarez hafi kallað sig niggara

Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á því hvort Luis Suarez, framherji Liverpool, hafi verið með kynþáttafordóma í garð hins hörundsdökka bakvarðar Man. Utd, Patrice Evra, í leik liðanna á Anfield í dag.

Frakkinn Evra sagði frönskum fréttamönnum að Suarez hafi ítrekað verið með kynþáttaníð í sinn garð í leik liðanna.

Enska knattspyrnusambandið staðfestir að Andre Mariner dómari hafi verið meðvitaður um ásakanirnar undir lok leiksins og hafi skrifað um hegðun Suarez í skýrslu sína.

"Það eru myndavélar á vellinum og örugglega hægt að sjá hann segja ákveðið orð við mig að minnsta kosti tíu sinnum til að æsa mig upp. Það er ótrúlegt að menn hagi sér svona árið 2011. Dómarinn veit líka af þessu," sagði Evra en hann vildi ekki segja sjálft orðið.

Talið er að Suarez hafi kallað Evra "niggara" en að sögn talsmanns Liverpool neitar Suarez þessum ásökunum. Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, var kallaður á fund dómara 20 mínútum eftir leikinn vegna málsins.

Suarez er ekki óvanur því að koma sér í vandræði en hann var dæmdur í 12 leikja bann hjá Ajax er hann beit andstæðing sinn.

Hér að ofan má sjá bitið hjá Suarez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×