Manchester City gaf frá sér yfirlýsingu á heimasíðu sinni í kvöld þar sem félagið fer yfir stöðuna í máli Carlos Tevez sem lýkur tveggja vikna verkbanni sínu í kvöld.
Forráðamenn Manchester City hafa verið að rannsaka atburðina á
Allianz Arena 27. september síðastliðinn þar sem Carlos Tevez átti að hafa neitað að fara inn á völlinni í Meistaradeildarleik á móti Bayern Munchen.
Fyrstu niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að Argentínumaðurinn hafi þarna orðið vís að samningsbroti við félagið en Tevez fær 230 þúsund pund í vikulaun (tæpar 42 milljónir íslenskra króna) og er með samning til 30. júní 2014.
Manchester City hefur látið Carlos Tevez þegar vita af stöðu mála sem og að hann þurfi að koma fyrir aganefnd félagsins þar sem hann þarf að verja framkomu sína í Munchen.
Tevez hefur alltaf talað um að þarna hafi verið um misskiling að ræða og að hann hafi aldrei neitað að fara inn á völlinn.
Tevez átti að mæta á sína fyrstu æfingu eftir verkbannið á morgun en Roberto Mancini, stjóri Manchester City, lét hafa það eftir sér þetta umrædda kvöld að argentínski framherjinn myndi ekki spila fyrir hann aftur.
Enski boltinn