Innlent

Mótmælendur óánægðir með endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. Mynd JMG
Ekki voru allir ánægðir með ráðstefnuna í Hörpu í dag en mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan Hörpuna og tendruðu rauð blys til að sýna óánægju sína með endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Á meðan hagfræðingar, ráðherrar og erlendir fræðimenn ræddu árangur íslenska ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við að ná upp efnahagslífinu eftir bankahrunið söfnuðust nokkrir mótmælendur saman fyrir utan Hörpuna ósammála fundarmönnum.

„Ef maður horfir til dæmis á velferðarkerfið, hvernig hefur verið farið með það og kjör almennings þá er hann ekki góður,“ segir Rakel Sigurgeirsdóttir, einn skipuleggjanda mótmælanna.

Tvisvar áður hafa mótmælendur tendrað rauð blys í mótmælaskyni, fyrst á Austurvelli á meðan á atkvæðagreiðslu Icesave tvö stóð yfir, síðan aftur á hlaðinu á Bessastöðum í janúar 2010 þegar InDefence hópurinn krafðist þess að forsetinn vísaði þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Rakel segir blysin tákna rautt neyðarkall.

„Þannig að við getum sent skilaboð út í heim frá íslenskum almenningi um að við séum ekki sátt, við lítum ekki á þetta sem góðan árangur,“ sagði Rakel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×