Innlent

Black Pistons-menn dæmdir í fangelsi

Frá þingfestingu málsins
Frá þingfestingu málsins mynd/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í Black Pistons-málinu svokallaða í morgun. Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, forsprakki samtakanna, hlaut þyngsta dóminn en hann var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi. Davíð Freyr Rúnarsson var dæmdur í þriggja ára fangelsi og sautján ára piltur sem var í slagtogi með þeim fékk sex mánaða dóm. Þá þurfa einnig að greiða fórnarlambinu eina og hálfa milljón í miskabætur.

Mennirnir voru ákærðir fyrir að hafa í maí síðastliðnum svipt rúmlega tvítugan karlmann frelsi sínu, haldið honum nauðugum á heimili annars þeirra og í geymsluhúsnæði, misþyrmt honum og svívirt með margvíslegum hætti.

Davíð Freyr játaði í aðalmeðferð málsins að hafa kýlt og sparkað í manninn en sagði Ríkharð ekki hafa komið nálægt árásinni. Ríkharð neitaði að hafa tekið þátt í líkamsárásinni en hann hafi hugsanlega stuggað við honum. Báðir neituðu þeir að hafa svipt manninn frelsi sínu.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni sagði fyrir dómara ekki hafa búist við að komast lífs af á meðan árásinni stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×