Fótbolti

Cassano þarf að fara í hjartaaðgerð - frá í nokkra mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Cassano.
Antonio Cassano. Mynd/AFP
Ítalski landsliðsframherjinn Antonio Cassano mun ekki spila fótbolta næstu mánuðina því það er nú ljóst að veikindi hans um helgina kalla á það að þessi 29 ára gamli leikmaður AC Milan þurfi að fara í hjartaaðgerð.

Í yfirlýsingu frá frá AC Milan kemur fram að Cassano þurfi að gangast undir litla hjartaaðgerð og það verði ekki hægt að spá fyrir um það hvenær hann snýr aftur fyrr en að menn sjá hvernig aðgerðin heppnast.

Cassano veiktist eftir flugferð heim frá Róm eftir 3-2 sigur AC Milan á Roma um síðustu helgi. Hann er á batavegi en átti fyrst erfitt með tala og hreyfa sig.

Cassano fékk blóðtappa sem barst upp í heila og orsakaði lítið heilablóðfall. Það hafa samt ekki enn fundist vísbendingar um að leikmaðurinn hafi orðið fyrir heilaskemmdum vegna þessa.

Antonio Cassano hefur skorað 2 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 9 leikjum í ítölsku deildinni á þessu tímabili en hann var með 4 mörk og 6 stoðsendingar í 17 deildarleikjum AC Milan á síðustu leiktíð. Hann er einnig fastamaður í ítalska landsliðinu sem hefur tryggt sig inn á Evrópumótið næsta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×