Viðskipti erlent

Walker búinn að útvega 55 milljarða upp í kaupin á Iceland

Talið er að Malcolm Walker forstjóri Iceland Foods verslunarkeðjunnar hafi þegar útvegað sér 300 milljónir punda, eða rúmlega 55 milljarða króna upp í kaupin á keðjunni.

Þetta kemur fram í frétt í blaðinu Telegraph. Þar segir að GSO, dótturfélag fjárfestingarsjóðsins Blackstone, hafi lofað Walker þessu fjármagni.

Walker leitar nú að fjármagni til að kaupa Iceland en hann er með forkaupsrétt á keðjunni á þann hátt að hann getur jafnað og gengið inn í hæsta boðið í hana. Nokkrir af stærstu bönkum heims hafa lofað Walker að aðstoða hann við að kaupa Iceland af skilanefndum Landsbankans og Glitnis. Þar á meðal eru Deutsche Bank, Royal Bank of Scotland og Goldman Sachs.

Í fyrstu umferð bárust tilboð upp á yfir 1,3 milljarða punda eða rúmlega 240 milljarða króna. Meðal þeirra sem lagt hafa fram tilboð má nefna Morrisons, Asda og BC Partners.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×