Sport

Menningarlegur misskilningur á milli Evra og Suarez?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrice Evra fagnar marki í leik með Manchester United.
Patrice Evra fagnar marki í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Mögulegt er að einfaldur misskilningur á milli Patrice Evra og Luis Suarez hafi orðið til þess að sá fyrrnefndi sakaði þann síðarnefnda um kynþáttaníð eftir leik Liverpool og Manchester United fyrr í haust.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um sakaði Evra, sem leikur með Manchester United, Suarez um að hafa notað niðrandi orðalag um sig margoft í leiknum.

Ekkert hefur frést af rannsókn enska knattspyrnusambandsins um málið en enskir fjölmiðlar fjalla áfram það í dag. Í greinum The Guardian og The Independent í dag er þeim möguleika velt upp að þetta hafi allt verið misskilningur.

Þar er sagt að svo gæti verið að Suarez hafi kallað Evra „negrito“ en það er orð sem spænskumælandi Suður-Ameríkubúar nota oft sín á milli sem vinsamlegt grín. Negrito þýðir lítill svartur maður en merking orðsins er engu að síður sögð vera meinlaus - það sé í raun annað orð fyrir félaga eða vin.

Í þessu samhengi er bent á að Dani Pacheco, leikmaður spænska U-21 landsliðsins, hafi sent liðsfélaga sínum í U-21 liðinu, Thiago, skilaboð á Twitter þar sem hann notaði orðið.

Því er bent á þann möguleika að Evra, sem er franskur, hafi ekki þekkt orðið nægilega vel og gert ráð fyrir því að Suarez hafi verið að nota miklu verra orð um sig. Enn fremur er talið að þessi misskilningur hafi orðið til þess að rannsóknin hafi tafist svo mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×