Enski boltinn

Carlos Tevez: Ég yrði ánægður að komast til Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez er spenntur fyrir því að spila með ítalska liðinu AC Milan ef marka má nýjustu yfirlýsingu umboðsmanns hans Kia Joorabchian en sá umdeildi maður var í viðtali á heimasíðunni Football Italia í dag.

Kia Joorabchian er nú staddur í Mílanó þar sem hann er að tala við forráðamenn AC Milan en ítölsku meistararnir hafa áhuga á því að fá Tevez til sín í janúar. AC Milan er að leita að manni fyrir ítalska landsliðsmanninn Antonio Cassano sem þurfti að gangast undir hjartaaðferð á dögunum og verður ekkert meira með á tímabilinu.

„Ég hef talað við Carlos og hann sagði mér að hann yrði ánægður að komast til Ítalíu. Við höfum rætt við AC Milan og stóru klúbbarnir á Ítalíu eru góður kostur í stöðunni," sagði Kia Joorabchian í viðtali á netsíðunni Football Italia. „Carlos vill spila fyrir alvöru klúbb," bætti Joorabchian við.

Carlos Tevez hefur skrópað á allar æfingar hjá Manchester City að undanförnu og heldur sig hjá fjölskyldu sinni í Argentínu. Hann heimtaði að vera seldur síðasta sumar og neitaði síðan að hita upp fyrir Meistaradeildarleik á móti Bayern München í lok september. Síðan þá hefur hann ekki æft né spilað með félögum sínum í Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×