Fótbolti

Petr Cech: Ekki kenna Villas-Boas um þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech og félagar.
Petr Cech og félagar. Mynd/Nordic Photos/Getty
Petr Cech, markvörður Chelsea, hefur komið stjóra sínum, Andre Villas-Boas, til varnar en Chelsea-liðið tapaði í fjórða sinn í sex leikjum í deild og Meistaradeild í Leverkusen í gær.

Andre Villas-Boas er bara 34 ára gamall og tók við af Carlo Ancelotti sem var rekinn eftir síðasta tímabil. Portúgalski stjórinn hefur undanfarið verið gagnrýndur fyrir bæði leikstíl og leikmannaval.

„Stjórinn er ekki inn á vellinum. Við leikmennirnir erum inn á vellinum og það erum við sem erum að gera þessi mistök. Hann getur ekki komið í veg fyrir þessi mistök standandi á hliðarlínunni," sagði Petr Cech í viðtali á heimasíðu Chelsea.

„Þetta gengi er leikmönnunum að kenna. Við gerum okkur grein fyrir því og ætlum ekki að koma með neinar afsakanir," sagði Cech en tapið í gær þýðir að Chelsea fær Valencia í heimasókn á Stamford Bridge í hreinum úrslitaleik um sæti í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×