Alex Song og félagar í Arsenal tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og sigur í sínum riðli með því að vinna 2-1 sigur á Borussia Dortmund í kvöld. Song lagði upp fyrra mark Robin van Persie en hollenski framherjinn skoraði bæði mörkin.
„Það tók okkur tíma að komast í gang. Þetta var ekki auðvelt en á endanum unnum við góðan og mikilvægan sigur, Við ætluðum okkur að gera vel í dag og við erum því mjög ánægðir með þessi úrslit. Við sýndum góðan karakter," sagði Alex Song en hvað með frammistöðu Robin van Persie sem getur ekki hætt að skora.
„Hann er í ótrúlegu formi. Hann er mjög mikilvægur fyrir okkur og ég vona að hann meiðist ekki. Ef að hann myndi meiðast þá yrði það mjög erfitt fyrir okkur. Við þurfum að halda honum í þessu frábæra formi," sagði Song.
Fótbolti