Fótbolti

Platini óánægður með ummæli Ferguson um Evrópudeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA.
Michel Platini, forseti UEFA. Nordic Photos / Getty Images
Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, er ekki ánægður þau ummæli sem Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, lét falla um Evrópudeild UEFA á dögunum.

Manchester United féll úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa tapað fyrir Basel, 2-1, í lokaumferð riðlakeppninnar fyrr í vikunni. United endaði í þriðja sæti síns riðils og fer því inn í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

„Það verður refsing okkar að spila í Evrópudeildinni fyrir að komast ekki áfram í Meistaradeildinni,“ sagði Ferguson eftir leikinn gegn Basel.

Platini svaraði um hæl. „Heimurinn snýst ekki um enska boltann. Evrópudeildin er frábær keppni,“ sagði hann. „Ég kann mjög vel við England og er knattspyrnan frábær. Stuðningsmennirnir eru yndislegir. En þú mátt ekki gagnrýna Evrópudeildina bara vegna þess að þú hefur spilað í þrisvar sinnum spilað í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.“

„Ég veit vel að hr. Ferguson hefði gjarnan frekar viljað spila í Meistaradeildinni en það eru mörg félög sem fá ekki tækifæri til þess.“

Ferguson hefur síðan þá sagt að Evrópudeild væri sterk keppni sem að hann vill að liðið vinni í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×