Enski boltinn

Wilshere í klípu út af ummælum á Twitter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jack Wilshere.
Jack Wilshere. Nordic Photos / Getty Images
Jack Wilshere er búinn að koma sér í klípu fyrir sakleysisleg ummæli á Twitter-síðu sem snerust um að veðja á leik með Arsenal, sínu eigin liði.

Wilshere er nú frá vegna meiðsla en skrifaði á Twitter að líkurnar á því að Emmanuel Frimpong myndi skora fyrsta mark leiks Arsenal og Olympiakos væru 150 gegn einum. Það væri því þess virði að taka því veðmáli fyrir tíu pund.

Það er vitanlega stranglega bannað að veðja á eigið lið, sama þó svo að Wilshere hafi ekki tekið þátt í leiknum. Svo fór að Frimpong komst nálægt því að skora fyrsta markið í leiknum. „Þarna var ég næstum búinn að græða.“

Þeir Frimpong og markvörðurinn Wojciech Szszesny tóku þátt í gríninu á Twitter. Sá síðarnefndi gantaðist með að Wilshere ætti frekar að setja pening á að Lukasz Fabianski, annar markvörður hjá Arsenal, myndi skora frekar en Frimpong.

Frimpong spurði hverjar líkurnar væru á að hann myndi eiga fyrstu tæklingu leiksins.

Samkvæmt götublaðinu The Sun er líklegt að Knattspyrnusamband Evrópu muni skoða málið en öllum má vera ljóst að lítil alvara var á bak við orð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×