Fótbolti

Barca-börnin glöddu Guardiola í gær: Óaðfinnanleg frammistaða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barca-börnin fagnar einu marka sinna í gær.
Barca-börnin fagnar einu marka sinna í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, tefldi fram hálfgerðu unglingaliði í síðasta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Leikmenn eins og Lionel Messi, Xavi, Andrés Iniesta og fleiri fengu hvíld en í staðinn fengu framtíðarleikmennirnir að prufa sig í deild þeirra bestu.

Það er óhætt að segja að stráklingarnir hafi staðið sig og gott betur því þeir unnu 4-0 sigur á Íslandsvinunum í Bate Borisov. Barcelona var þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum þannig að leikurinn skipti ekki neinu máli en mörkin fjögur sáu til þess að Börsungum tókst að jafna markamet Manchester United frá 1999 yfir flest mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Meðalaldur útileikmennina var aðeins 21 ár og spænsku fjölmiðlarnir töluðu um Barca-börnin (Baby Barca) í umsögn sinni í morgun. Sergi Roberto, 19 ára miðjumaður, skoraði fyrsta markið, Martín Montoya 20 ára bakvörður, kom Barca í 2-0 og hinn 24 ára gamli Pedro skoraði tvö síðustu mörkin.

„Þetta var óaðfinnanleg frammistaða. Það er ekki auðvelt að tefla fram sjö stráklingum úr varaliðinu og ná samt að spila svona vel. Það var mjög gaman að sjá þá standa sig svona vel og við erum mjög stoltir af þeim. Þetta eru hæfileikaríkir leikmenn og ég vona að þeir getið hjálpað Barca í framtíðinni," sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×