Handbolti

Dóttir Þóris: Þetta verður sérstakur leikur fyrir fjölskylduna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hergeirsson er þjálfari norska landsliðsins.
Þórir Hergeirsson er þjálfari norska landsliðsins. Mynd/Pjetur
María Þórisdóttir er eins og pabbi sinn í sérstakri stöðu fyrir leik Íslands og Noregs á HM í Brasilíu í kvöld. Faðir hennar er Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins.

Fjölskyldan mun samt halda mest með Noregi og pabbanum, en smá með Íslandi líka. „Þetta verður sérstakur leikur. Bæði fyrir pabba og okkur sem sitjum heima,“ sagði hún í viðtali við heimasíðu dagblaðsins VG. María er átján ára gömul og á norska móður. Hún hefur búið í Noregi alla sína tíð enda flutti Þórir til Noregs fyrir 25 árum síðan.

María spilar bæði með U-19 ára landsliði Noregs í fótbolta og er einnig efnileg handboltakona. Spurð hvort hún líti á sig sem norska svarar hún einfaldlega: „Ég er hálfur Íslendingur.“

Fram kemur í greininni að Þórir hafi talað á íslensku við sín börn sem hafi fengið föðurnafn sitt samkvæmt íslenskri hefð. „Ég var mjög ánægð með að Ísland hafi unnið Svartfjallaland en ég held mest með Noregi. En það er smá hluti af mér sem heldur líka með Íslandi,“ er haft eftir Maríu.

Hún segir að pabbi sinn sé Íslendingur í húð og hár. „Hann er bara íslenskur. Hann ólst upp á Íslandi og verður áfram Íslendingur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×