Sport

Amir Khan tapaði fyrir Peterson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Khan og Peterson í bardaganum í nótt.
Khan og Peterson í bardaganum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Bandaríkjamaðurinn Lamont Peterson vann í nótt góðan sigur á Bretanum Amir Khan í tvöföldum meistarabardaga í léttveltivigt. Þetta var aðeins annað tap Khan á ferlinum en Peterson hefur nú unnið 30 bardaga, gert eitt jafntefli og tapað einum. Peterson vann þar með WBA- og IBF-titlana af Khan.

Khan talaði digurbarkalega fyrir bardagann og þótti talsvert sigurstranglegri keppandinn. Hann byrjaði vel og sló Peterson niður tvívegis í fyrstu lotunni en bardaginn hélt þó áfram.

Peterson náði svo góðum höggum á Khan bæði í þriðju og sjöundu lotu auk þess sem að dómari ákvað að draga stig af Khan í tvígang.

Á endanum þurfti að grípa til skorkortanna og hafði Peterson betur. Tveir dómarar gáfu honum fleiri stig en einn taldi að Khan hefði verið betri.

Khan sagði eftir bardagann að dómarinn hefði kostað sig sigurinn en ákvarðanir hans um að draga stig af honum í tvígang voru afar umdeildar. Það er ljóst að þær höfðu mikið að segja þar sem að tveir dómaranna gáfu Peterson 113 stig en Khan 112. Sá þriðji gaf Khan 114 stig en Peterson 111.

Peterson sagði eftir bardagann að hann væri reiðubúinn að berjast aftur við Khan.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×