Enski boltinn

Steve Kean þakklátur Sir Alex

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kean.
Steve Kean. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steve Kean, stjóri Blackburn, hefur fengið slæma meðferð hjá stuðningsmönnum félagsins í kjölfar slæms gengis liðsins og hann er sérstaklega þakklátur Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, fyrir að hafa haft samband og stappað í hann stálinu eftir tapleikinn á móti Bolton á dögunum.

Skotarnir Kean og Ferguson mætast með lið sína á Gamlársdag en Sir Alex Ferguson heldur þá upp á sjötugsafmælið sitt. Ferguson hafði samband við Kean efir að Blackburn tapaði mikilvægum leik á móti Bolton fjórum dögum fyrir jól en það var þriðja tap liðsins í röð á móti liðum í neðri hlutanum og útlitið var allt annað en bjart eftir það tap.

„Sir Alex skildi eftir löng skilaboð og ég hringdi í hann til baka. Við töluðum lengi saman og ég met hans stuðning mikils. Hann er heldur ekki sá eini sem hefur haft samband," sagði Steve Kean en Blackburn er enn á botninum þrátt fyrir jafntefli við Liverpol á Anfield í síðasta leik. Kean hrósaði Sir Alex líka mikið.

„Eldmóður og löngun Sir Alex er innblástur fyrir alla yngri stjóra. Það er ótrúlegt hvað hann leggur á sig og ferðast mikið. Hann er á Meistaradeildarleik, varaliðsleik og svo sérðu hann líka á öðrum leikjum. Ég þekki vinnusemi hans vel og það er ótrúlegt að sjá hann halda svona lengi út á þessu getustigi, búa til hvert liðið á fætur öðru og halda alltaf áfram að vinna," sagði Kean.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×