Enski boltinn

Modric: Ég fer ekki frá Tottenham í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Luka Modric segist vera næstum 100 prósent viss um að hann verði áfram hjá Tottenham út tímabilið þrátt fyrir sögusagnir um annað.

Chelsea reyndi að kaupa Modric í sumar og sjálfur sagðist hann gjarnan vilja söðla um. En Tottenham neitaði að selja og hefur Modric átt frábært tímabil með liðinu til þessa.

Modric var einnig orðaður við Manchester United en hann gefur lítið fyrir allar sögusagnir um sig. „Þetta er bara slúður í blöðunum. Ég veit ekkert um þessi tilboð sem áttu að hafa borist í mig," sagði Modric við fjölmiðla í Króatíu.

„Við erum að reyna að gera okkar besta hjá Tottenham. Eftir það sem ég gekk í gegnum í sumar get ég sagt með næstum 100 prósenta fullvissu um að ég verði áfram hjá Tottenham fram á næsta sumar."

„Það er smá möguleiki á því að ég fari ef félagið fær tilboð í mig sem það telur sig ekki geta hafnað. En raunin er sú að ég verð áfram hjá Tottenham fram á næsta sumar og þá munum við sjá til."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×