Enski boltinn

Mertesacker: Vill sjá bæði Henry og Podolski hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Podolski, lengst til vinstri, grínast með liðsfélögum sínum í Köln.
Lukas Podolski, lengst til vinstri, grínast með liðsfélögum sínum í Köln. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Per Mertesacker, þýski varnarmaðurinn hjá Arsenal, er ánægður með frammistöðu Thierry Henry á æfingum liðsins undanfarna daga og vill líka að Arsene Wenger reyni að kaupa þýska landsliðsframherjann Lukas Podolski frá Köln.

„Henry hefur mikla reynslu og það er frábært tækifæri okkur að fá hann. Ég er ekki stjórinn og veit ekki hvort að þetta sé mögulegt. Það sem ég veit er að Henry er búinn að standa sig mjög vel á æfingum og hefur sýnt að hann er enn klassaleikmaður," sagði Per Mertesacker en hann vill líka fá landa sinn Podolski til liðsins.

„Hann er kraftmikill og frábær leikmaður ekki síst með þýska landsliðinu. Hann er búinn að skora fullt af mörkum enda mjög góður framherji sem kann að klára færin. Ég er aðdáandi hans og hins ótrúlega vinstri fótar hans," sagði Mertesacker.

Thierry Henry skoraði 226 mörk í 369 leikjum með Arsenal frá 1999 til 2007 en hann stóð sig einnig vel með New York Red Bulls á síðasta tímabili í bandarísku deildinni og var þá með 15 mörk í 29 leikjum. Hinn 26 ára gamli Lukas Podolski hefur skorað 14 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 16 leikjum með Köln á þessu tímabili en hann er fastamaður í þýska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×