Enski boltinn

Heiðar búinn að framlengja við QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson skorar í leik með QPR í haust.
Heiðar Helguson skorar í leik með QPR í haust. Nordic Photos / Getty Images
Heiðar Helguson hefur framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið QPR til loka tímabilsins 2013 en gamli samningurinn átti að renna út í lok tímabilsins.

Þetta er staðfest á heimasíðu QPR í dag. Heiðar er 34 ára gamall og hefur verið í hörkuformi í haust og skorað sjö mörk í síðustu tíu leikjum sínum með liðinu.

Neil Warnock, stjóri QPR, var hæstánægður með tíðindin. „Ég þurfti að berjast með kjafti og klóm til að halda Heiðar hér í sumar vegna þess að ég vissi að hann gæti reynst okkur mikilvægur í ensku úrvalsdeildinni," sagði Warnock en eigendur QPR vildu ekki halda Heiðari í sumar vegna aldurs hans.

„Hann hefur sannað enn og aftur hversu góður leikmaður hann er. Hann á svo sannarlega skilið að fá nýjan samning - enginn á það frekar skilið en hann."

„Heiðar hefur allt það góða að bera sem einkennt getur atvinnumann í knattspyrnu og er þar að auki yndislegur drengur."

Warnock ætlar samt að styrkja liðið með fleiri sóknarmönnum, mögulega strax í janúar. „Við vitum að hann mun ekki spila hvern einasta leik og því þurfum við að styrkja okkur á þessu sviði. Við erum að vinna í þeim málum og vonandi mun það bera árangur. Við erum mjög vongóðir um það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×