Enski boltinn

Newcastle hættir við að kaupa framherja | Pardew vill varnarmann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alan Pardew.
Alan Pardew. Nordic Photos / Getty Images
Ekkert varð af fyrirhuguðum kaupum Newcastle á Modibo Maiga frá Sochaux í Frakklandi og þá segja forráðamenn Montpellier að félagið hafi ekki efni á Olivier Giroud.

Báðir eru sóknarmenn en Newcastle ætlaði að kaupa Maiga á sex milljónir punda. Sá er frá Afríkuríkinu Malí en Newcastle hætti við þar sem kappinn á við hnémeiðsli að stríða.

„Ég held að við munum ekki kaupa sóknarmann í janúarglugganum eftir að kaupin á Maiga gengu ekki í gegn. Við höfðum lagt mikla vinnu í það mál," sagði Alan Pardew, stjóri Newcastle, við enska fjölmiðla.

Newcastle hafði einnig verið orðað við Giroud sem hefur skorað þrettán mörk fyrir Montpellier á tímabilinu. En eigandi félagsins, Louis Nicollin, segir að Newcastle sé of lítið félag fyrir Giroud.

„Newcastle? Nei, það er of lítið félag. Arsenal? Það ræðst af því hvort að Arsene Wenger hafi áhuga en Van Persie er þar fyrir," sagði Nicollin.

„Og tíu milljónir evra? Nei. Miðað við að hann á tvö ár eftir af samningi sínum mun hann kosta meira en það. Hann er samningsbundinn til 2014 og mun því að minnsta kosti fara á 50-60 milljónir evra."

Pardew segir að Newcastle þurfi varnarmann fyrir Steven Taylor sem verður frá vegna meiðsla allt tímabilið. „Við munum skoða það að fá varnarmann í janúar. Við þurfum á öðrum varnarmanni að halda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×