Enski boltinn

Redknapp: Bale er gallalaus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, var vitanlega hæstánægður með frammistöðu Gareth Bale sem skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri liðsins á Norwich í gær. Mörkin má sjá hér fyrir ofan.

Hann segir að aðeins ríkustu félög heims hafi efni á að kaupa Bale. En hann sé þó ekki til sölu. „Annars værum við búnir að selja hann - er það ekki? Það eru aðeins Barcelona, Real Madrid og Manchester City sem hefðu efni á honum."

„Hann er ótrúlegur knattspyrnumaður. Hann er með allt sem þarf til og er algjörlega gallalaus," bætti Redknapp við en þess ber að geta að Bale er aðeins 22 ára gamall. Hann hefur skorað átta mörk með Tottenham á tímabilinu og þrjú mörk með velska landsliðinu.

„Hann getur skallað, er nautsterkur, getur hlaupið, rakið boltann og skotið. En mestu máli skiptir að hann er frábær drengur."

„Stjórnarformaður Tottenham hefur ítrekað sagt að hann sé ekki til sölu. Enda gengur það ekki upp að selja leikmenn eins og hann ef félagið ætlar sér að ná einhverjum árangri í framtíðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×