Enski boltinn

Öll augu á Suarez og Kean á Anfield í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tveir menn verða í sviðsljósinu í leik Liverpool og Blackburn í ensku úrvalsdeildinni sem fer fram á Anfield í dag. Þetta eru þeir Steve Kean, stjóri Blackburn og Luis Suarez, framherji Liverpool.

Luis Suarez mun þarna leik sinn fyrsta heimaleik með Liverpool síðan að hann var dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttarfordóma gegn Patrice Evra hjá Manchester United. Suarez lék einnig í markalaust jafntefli á móti Wigan á miðvikudaginn og má spila þar sem að það er ekki enn búið að taka fyrir áfrýjun hans.

Steve Kean situr enn í stjórastólnum hjá Blackburn þrátt fyrir skelfilegt gengi og stöðuga umræðu um að hann verði rekinn. Blackburn er í neðsta sæti deildarinnar og hefur tapað þremur leikjum í röð, öllum með markatölunni 1-2.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, stendur að sjálfsögðu með sínum leikmanni en hann finnur einnig til með Kean sem hefur mátt þola óblíðar móttökur frá stuðningsmönnum Blackburn að undanförnu.

„Þeir eru undir mikilli pressu og það er svo sem alveg hægt að skilja pirringinn í stuðningsmönnunum. Það hjálpar samt ekki mikið og það er leiðinlegt að hann skuli vera kominn í þessa stöðu," sagði Kenny Dalglish um Kean.

„Þetta snýst um að ná í úrslit og ef þú nærð þeim ekki er alltaf hætta á því að þú verðir rekinn. Úrslitin fara samt ekki bara eftir því hvað stjórinn gerir því hann þarf stuðning frá leikmönnum, eigendum og síðast en ekki síst, stuðningsmönnunum," sagði Dalglish.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×