Enski boltinn

Þriðja 1-1 jafnteflið í röð hjá Chelsea - Torres fékk að spila allan leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea er að missa af lestinni í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-1 jafntefli á heimavelli á móti Fulham. Fulham tapaði 5-0 á heimavelli á móti Manchester United í leiknum á undan. Chelsea er tíu stigum á eftir toppliði Manchester City og átta stigum á eftri United sem spila bæði seinna í dag.

Þetta er þriðja 1-1 jafntefli Chelsea í röð en liðið hafði einnig gert jafntefli við Wigan og Tottenham í leikjunum á undan. Andre Villas-Boas leyfði Fernando Torres að spila allar 90 mínúturnar en það dugði ekki til að koma Spánverjanum í gang.

Fyrri hálfleikurinn var í daufara lagi og hvorugu liðinu tókst að skapa sér meira en hálffæri. Það þurfti hinsvegar ekki að bíða lengi eftir marki í seinni hálfleiknum.

Juan Manuel Mata kom þá Chelsea í 1-0 á 47. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir að boltinn hafði hrokkið til hans frá Fernando Torres.

Það tók Fulham ekki langan tíma að jafna leikinn en þar var að verki Clint Dempsey á 56. mínútu. Bryan Ruiz fór illa með Ashley Cole og gaf fyrir þar sem að Dempsey var á undan þeim John Terry og Petr Cech í markteignum. Dæmigert mark fyrir slakan varnarleik Chelsea á tímabilinu.

Chelsea náðu upp þó nokkurri pressu á lokamínútum leiksins ekki síst eftir að Didier Drogba kom inn á sem varamaður en David Stockdale varði hvað eftir annað frábærlega í marki Fulham.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×