Handbolti

Wilbek: Mikkel Hansen er besti handboltamaður í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen
Mikkel Hansen Mynd/Heimasíða AG
Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, er betur settur í stöðu vinstri skyttu en flestir aðrir þjálfarar á EM í Serbíu í næsta mánuði. Hann gerir sér líka fullkomlega grein fyrir því ef marka má yfirlýsingar hans í dönskum fjölmiðlum.

Mikkel Hansen, liðsfélagi Snorra Steins, Arnórs, Guðjóns Vals og Ólafs hjá AG Kaupmannahöfn, er frábær skytta og er sem dæmi markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar til þessa í vetur. Nikola Karabatic hefur verið kallaður besti handboltamaður í heimi en nú vill Wilbek meina að hinn 24 ára Hansen sé ekki síðri.

„Mikkel verður alltaf betri og betri og ég sé ekki lengur handboltamann í heiminum sem er hæfileikaríkari en hann," sagði Ulrik Wilbek.

„Skoðið sem dæmi á leikinn á móti Kiel þar sem að Mikkel byrjar ekki að skora fyrr en eftir tuttugu mínútur. Fram að því var hann að spila upp meðspilara sína vitandi það að hann gæti nánast skorað af vild," sagði Wilbek.

„Ólíkt öðrum stórskyttum þá skýtur hann ekki við hvert tækifæri. Hann hefur þann hæfilega að geta beðið og brugðist rétt við aðstæðum," sagði Wilbek.

Danir búast við miklu af Mikkel Hansen og danska landsliðinu sem varð í 2. sæti á HM 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×