Fótbolti

Doni: Get ekki horft á sjálfan mig í speglinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Doni.
Cristiano Doni. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cristiano Doni, fyrrum fyrirliði ítalska liðsins Atalanta, hefur viðurkennt að hafa tekið þátt í að hagræða úrslitum leikja í ítölsku b-deildinni en hann var einn af sextán sem voru handteknir á mánudaginn vegna rannsóknar á Ítalíu á leikjum þar sem úrslitunum var hagrætt.

Cristiano Doni var haldið í einangrun í fimm daga en hitti svo lögmann sinn á föstudaginn áður en hann var yfirheyrður vegna málsins.

„Já, ég vissi um að úrslitunum var hagrætt í leik Atalanta og Piacenza. Ég gaf samþykki mitt og veðjaði sjálfur á leikinn. Ég reyndi líka að leika sama leik í Ascoli-leiknum en þetta var allt einkaframtak mitt og félagið vissi ekki neitt," sagði Cristiano Doni við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport.

„Ég sagði já af því að Atalanta græddi á þessu. Ég hefði aldrei þegið pening fyrir að láta mitt lið tapa. Ég gerði stór mistök og núna get ég ekki horft á sjálfan mig í spegli. Ég fer þá að hugsa um alla þá kvöl sem ég hef valið fjölskyldu minni og stðningsmönnum Atalanta," sagði Doni.

Doni var dæmdur í þriggja ára bann í ágúst og Atalanta, sem komst upp í A-deildina í vor, missti sex stig. Hann neitaði þá sök en hefur nú viðurkennt allt saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×