Enski boltinn

Sir Alex: Twitter- og bloggsíður ráða því ekki hvað við gerum í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/DIENER/Leena Manhart
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segist ekki ætla að fara að leita sér að nýjum leikmönnum í janúar þrátt fyrir að liðið hafi misst marga leikmenn í meiðsli að undanförnu. Ferguson segist vera ánægður með styrk leikmannahópsins hjá United sem er tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City.

Ashley Young bættist á listann í vikunni en þar eru einnig Nemanja Vidic, Anderson, Michael Owen og Tom Cleverley auk þess að Darren Fletcher glímir við veikindi.

„Ég læt ekki endalaus skrif inn á twitter- og bloggsíðum ráða því hvað við gerum á félagsskiptamarkaðnum í næsta mánuði," skrifaði Sir Alex Ferguson í leikskrá fyrir leik United á móti Wigan á morgun.

„Ég er fullkomlega ánægður með hópinn hvað varðar breidd, gæði og aldursbil. Ég held áfram á minni leið og trúi áfram á mín gildi og meginreglur. Það getur hjálpað þér að komast í titilbaráttuna að ná í heimsklassa leikmenn en það skilar þér ekki endilega alla leið. Ég vona það að við getum sýnt það á þessu tímabili að aðrir hlutir skipti líka máli," sagði Ferguson og skýtur aðeins á nágrannana í City.

„Það er auðvitað aldrei hægt að segja aldrei því allt getur gerst í fótboltanum. Ef okkur býðst alvöru heimsklassa leikmaður þá reynum við að fá hann og enn fleiri meiðsli gætu líka breytt ýmsu og kallað á liðstyrk," skrifaði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×