Enski boltinn

Kean: Ég fer hvergi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Steve Kean, stjóri Blackburn, er alveg sama um hvað gagnrýnendur hans segja og ætlar að vera áfram í starfi þrátt fyrir slæmt gengi liðsins.

Blackburn situr í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en nú síðast tapaði liðið fyrir Bolton í botnslag deildarinnar.

Stuðningsmenn félagsins eru afar óánægðir með Kean og hafa mótmælt veru hans hjá félaginu kröftulega síðustu vikur og mánuði. Nú síðast var efnt til mótmæla fyrir utan æfingasvæði félagsins í dag.

Blackburn mætir Liverpool á mánudaginn og segir Kean að meiðsli hafi sett stórt strik í reikninginn hjá liðinu.

„Ef við hefðum haft fleiri menn til að velja úr væri staðan okkar allt önnur," sagði hann á blaðamannafundi í dag. Fjölmiðlamenn spurðu hann ítrekað um stöðu hans og hvort hann teldi sig öruggan í starfi.

„Þetta eru spurningarnar sem ég fæ [en ekki um meiðslin]. En ég er að reyna að svara þeim eins heiðarlega og ég get. Ég mun aldrei koma mér undan því að sitja blaðamannafundi og ég tel að ég sé að svara spurningum ykkar eins vel og ég get."

Fjölmargir knattspyrnustjórar, eins og Alex Ferguson og Arsene Wenger, hafa lýst yfir stuðningi við Kean og segja það ógeðfellt hvernig komið sé fram við hann.

„Með fullri virðingu fyrir blaðamönnum eða fyrrverandi leikmönnum þá mun ég frekar hlusta á margreynda knattspyrnustjóra sem hafa hringt í mig og hrósað mér fyrir að vinna gott starf miðað við þær aðstæður sem ég er í."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×