Enski boltinn

Cech tók á sig sökina fyrir marki Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Petr Cech, markvörður Chelsea, segir að markið sem Tottenham skoraði í leik liðanna í gær hafi verið sér að kenna.

Þetta var í annað skiptið á nokkrum dögum þar sem Cech gerist sekur um mistök sem kostar liðið mark og dýrmæt stig í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Emmanuel Adebayor kom Tottenham yfir í leik liðanna sem lauk með 1-1 jafntefli. Hann fékk sendingu frá Gareth Bale en Cech hefði átt að komast í boltann á undan Adebayor.

„Þegar boltinn kom fyrir þá var ég aðeins of seinn út og hann náði að pota boltanum inn,“ sagði Cech við enska fjölmiðla í dag. „En þetta var frábær sending og ég var hársbreidd frá því að ná boltanum.“

Leikmenn Chelsea fengu þó fjölmörg tækifæri til að skora í leiknum og tryggja sér þar með sigurinn en allt kom fyrir ekki. En heimamenn fengu líka sín færi, sérstaklega undir lok leiksins.

„Heilt yfir var þetta ágætt stig. En við getum ekki verið að hugsa of mikið um hvernig staðan er í deildinni. Við þurfum bara að hugsa um að vinna okkar leiki og reyna að hala inn eins mörg stig og mögulegt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×