Erlent

Fundu út nákvæmlega hvaðan steinarnir í Stonehenge komu

Vísindamönnum hefur tekist að staðsetja nákvæmlega úr hvaða grjótnámu steinarnir við Stonehenge komu upphaflega.

Niðurstaðan kemur ekki á óvart enda í samræmi við kenningar um að steinarnir komu frá Wales. En ekki frá Preseli hæðunum eins og áður var talið heldur grjótnámu við Pont Season í Pembrokeskíri.

Tveir vísindamenn frá háskólanum í Leicester hafa unnið undanfarna níu mánuði við að mæla grjót í skírinu með nýjustu mælitækjum og niðurstaðan er ljós. Stonehenge steinatröllin koma frá Pont Season sem einnig er í um tæplega 400 kílómetra fjarlægð frá Stonehenge.

Þeirri spurningu er þó enn ósvarað hvernig steinatröllin voru flutt frá Pembrokeskíri og til Stonehenge. Einn hópur sem reyndi að fara líklega leið með einn stein frá Wales til Stonehenge aldamótaárið 2000 varð að gefast upp í miðjum klíðum.

Hópurinn flutti steininn með vöðvaafli og þeirri tækni sem vitað er að var til staðar fyrir 5.000 árum síðan. Verkefnið fór út um þúfur þegar steinninn sökk í mýri á leiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×