Innlent

Ólafur Ragnar útnefndur maður ársins í Kryddsíldinni

Maður ársins að mati Fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Skemmst er frá því að segja að fáir hafa komið jafn afgerandi við sögu í fréttum á árinu og hann - ekki einungis á innlendum vettvangi heldur líka erlendum.

Ólafur Ragnar hefur áður markað djúp spor í sögu íslensku þjóðarinnar. Umdeild spor myndu sumir segja - og dýpkaði þau svo enn frekar þegar hann neitaði að samþykkja Icesavelögin snemma á árinu og vísaði valdinu þar með aftur til þjóðarinnar.

Kjörtímabili forsetans líkur á næsta ári. Ólafur Ragnar var spurður að því hvort hann ætlaði að bjóða sig fram að nýju þegar hann tók við viðurkenningunni. „Sú spurning hefur líka brunnið á mér. Ég hef velt því fyrir mér á undanförnum mánuðum út af mínum, út frá sjónarmiðum Dorritar og fjölskyldunnar allrar," sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar sagði að ákvörðunin væri ekki einföld ákvörðun. Hann vildi ekki segja hvort hann myndi opinbera ákvörðun sína í nýársávarpi á morgun en hann myndi samt sem áður fjalla um málið. „Ég mun vissulega fjalla um það - ég mun ekki skjóta mér undan því," sagði Ólafur Ragnar Grímsson.

Þegar Ólafur Ragnar var inntur eftir áliti hans um niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðsluna í Icesave málinu sagði hann að samningurinn sem var felldur í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni hafi verið mun betri samningur en sá sem var felldur í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunni og það hefði ekki verið óeðlilegt ef þjóðin hefði samþykkt hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×