Enski boltinn

Villas-Boas varar Ancelotti við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas segir að Carlo Ancelotti, nýr þjálfari Paris Saint-Germain, muni ekki fá að kaupa leikmenn frá Chelsea til franska félagsins.

Sjálfur þekkir hann það vel að nýráðnir knattspyrnustjórar leiti til sinna gömlu félaga í leit að leikmönnum. Villas-Boas reyndi að kaupa Alvaro Pereira frá Porto en án árangurs.

Ancelotti stýrði Chelsea í nokkra mánuði árið 2009 og þekkir vel til hjá Chelsea. Nokkrir leikmenn hafa verið sagðir á leið frá félaginu, eins og Florent Malouda sem hefur verið orðaður við PSG.

„Þeir eru ekki til sölu," sagði Villas-Boas. „Það er auðvitað alltaf möguleiki á það svona lagað geti gerst en það kemur ekki til greina að selja okkar leikmenn."

Samningar sóknarmannanna Didier Drogba og Salomon Kalou renna báðir út í sumar og hefur Villas-Boas gefið í skyn að félagið muni mögulega reyna að kaupa sóknarmann í janúar.

„Við erum að leita að hæfileikaríkum leikmönnum en það getur reynst erfitt að finna slíka leikmenn í janúar. Vonandi getum við gengið frá kaupunum á Gary Cahill (varnarmanni Bolton) sem fyrst og svo sjáum við til hvað gerist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×