Enski boltinn

Wenger staðfestir að Henry komi aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger.
Thierry Henry og Arsene Wenger. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, staðfesti á blaðamannafundi í morgun að Thierry Henry muni ganga aftur til liðs við félagið sem lánsmaður frá New York Red Bulls í tvo mánuði.

„Hann er kominn til að hjálpa félaginu sem hann elskar," sagði Wenger en Henry fór frá Arsenal árið 2007 eftir átta ára dvöl. Hann er markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi og var stytta reist af honum fyrir utan heimavöll félagsins nú fyrir skömmu.

MLS-deildin bandaríska er nú í fríi og því hefur Henry verið að æfa með Lundúnarliðinu síðustu vikurnar. Hann hefur þótt standa sig vel á þeim og þykir góður kostur fyrir liðið á meðan sóknarmennirnir Marouane Chamakh og Gervinho eru fjarverandi með landsliðum sínum í Afríkukeppninni í næsta mánuði.

Arsenal mætir QPR í ensku úrvalsdeildinni á morgun og sagði Wenger að ekki væri búið að ganga frá allri pappírsvinnu en að Henry myndi koma ef Arsenal kemst að samkomi við New York Red Bull um greiðslu trygginga.

„Þetta er bara jákvætt," sagði Wenger. „Hann býr yfir óviðjafnanlegum hæfileikum. Hann er afar reyndur og getur hjálpað öðrum, bæði innan vallar sem utan. En við verðum að passa okkur á því að setja ekki of mikla pressu á hann. Hann er 34 ára gamall og er hér til að hjálpa - ekki vera aðalmaðurinn í liðinu."

„Það verður gott fyrir okkur að fá þá Thierry og Robin van Persie til að spila saman."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×