Innlent

Kötturinn Keli baðar sig loksins í sviðsljósinu

Kötturinn Keli hefur lengi þráð sviðsljósið en því var einatt beint að eiganda hans. En nú er hans tími kominn eftir 23 ár.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Kötturinn Keli hefur lengi þráð sviðsljósið en því var einatt beint að eiganda hans. En nú er hans tími kominn eftir 23 ár. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Svo virðist sem Fréttablaðið hafi farið á mis við sjálfan aldursforsetann í leit sinni að elsta ketti landsins því kötturinn Keli varð 23 ára í júlí og er því ári eldri en Öskubuska sem fjallað var um í gær.

Keli er víst afar athyglissjúkur og hefur lengi þráð að komast í fjölmiðla en þeirri athygli hefur verið mjög misskipt á heimilinu því eigandi hans er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. En nú virðist hans tími kominn.

„Þegar fjölmiðlamenn komu hingað var hann ekki lengi að taka við sér og sótti mjög í myndavélarnar þannig að það er kominn tími til þess að hann fái líka sína 15 mínútna frægð eins og nú er svo mikið í tísku,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Hún fékk Kela þegar hann var aðeins mánaðargamall og því verður mikill sjónarsviptir af honum en óneitanlega nálgast hans hinsta stund. „Já, hann er orðinn lúinn, heyrir illa og er gigtveikur og kominn með elliglöp; stundum man hann ekki hvort hann er búinn að borða. En hann fer alltaf út og labbar aðeins um.“

Keli kemst ekki frá því að verða settur í pólitískt samhengi en hann fæddist í stjórnartíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og hefur lifað af ellefu ríkisstjórnir. Geri aðrir kettir betur.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×