Innlent

Lögreglan skrifaði skýrslu eftir að faðirinn fór að kanna málið

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Skýrsla lögreglu um andlát Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur var skrifuð fjórum og hálfum mánuði eftir að rannsókn lauk og ekki fyrr en að faðir hennar fór að grafast um málið. Lektor í refsirétti furðar sig á vinnubrögðum lögreglu.

Við sögðum frá því nýverið að lektor í refsirétti tekur undir með föður Sigrúnar Mjallar um að rannsókn lögreglu á láti hennar hafi verið ábótavant en hún lést af banvænum eiturlyfjaskammti fyrir rúmu ári. Fullt tilefni hafi verið til að rannsaka tildrög andlátsins enda leiki þar grunur á fjölda brota.

Faðir Sigrúnar óskaði í nóvember eftir afhendingu allra gagna lögreglu um andlát hennar. Lektornum þótti pakkinn rýr - og sagðist hafa fengist við mál - þar sem manni var gefið að sök að fara yfir á rauðu ljósi - sá pakki hafi verið þykkari en þessi.

Gögnin fékk hann í mars - en tæknideildarskýrslan barst ekki fyrr en nú í júní.

Dagsetning skýrslunnar vekur athygli. Sigrún Mjöll fannst látin 3. júní á síðasta ári - tæknideildarskýrslan er hins vegar skrifuð 14. apríl á þessu ári.

„Nú hefur lengi legið fyrir að lögregla sem reynir nú alltaf að vinna málin sem best, er algjörlega undirmönnuð og að hún sé að fara að gera skýrslur í máli sem hefur verið lokað fjórum mánuðum áður -ja, það finnst mér nú ótrúlegt, ef lögreglan hefur allt í einu tíma til að gera slíka skýrslu. Ég neita að trúa því, rannsókn málsins hefur verið lýst lokið," segir Jón Þór Ólason, lögmaður og lektor í refsirétti.

Þá finnst honum sérkennilegt að aðstandendur fái ekki afhentar undirritaðar skýrslur.

„Það er ekki verið að senda hinar eiginlegu lögregluskýrslur ef þær yrðu lagðar fyrir dóm þá hefðu þær ansi lítið vægi," segir Jón Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×