Innlent

Lamdi rangan mann fyrir að kalla félaga sína "þræla og górillur“

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Karlmaður var sektaður í dag um 75 þúsund krónur fyrir að hafa slegið í höfuð manns við skyndibitastaðinn Hlöllabáta í miðborg Reykjavíkur í júní árið 2009. Ástæðan var sú að hann taldi að fórnarlambið hefði kallað þeldökka félaga sína „svertingja, górillu og þræl" eins og fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Málsatvik voru þau að sá dæmdi var að skemmta sér á Glaumbar við Tryggvagötu þegar einhver sagði honum að til stæði að lemja frænda hans fyrir að pissa á bifreið fyrir utan bygginguna.

Þegar hann kom út sá hann hóp af fólki í stimpingum og rifrildi. Hann kvaðst þá hafa heyrt að einhver var að kalla eitthvað um svertingja, górillu og þræl, en tveir þeldökkir vinir hans voru á staðnum.

Hann stökk þá inn í hópinn þar sem félagar hans voru. Hann fékk umsvifalaust högg og féll í jörðina. Þegar hann stóð aftur upp sá hann hvernig félagar hans eltu fórnarlambið að Hlöllabátum. Þegar hinn dæmdi kom þangað sló hann manninn sem handleggsbrotnaði í árásinni auk þess sem hann tognaði á úlniði en fleiri menn menn komu að árásinni en þeir er ekki ákærðir í málinu.

Á meðan átökunum stóð kom lögreglan að þeim. Hinn dæmdi reyndi þá að flýja en lögreglan handtók hann skömmu síðar.

Við aðalmeðferð málsins kemur fram að fórnarlambið neitar því að hafa viðhaft niðrandi ummæli um þeldökku félaga árásarmannsins. Þá segir sá dæmdi að hann hefði ekki séð hver það var sem viðhafði ummælin.

Dómari leit sérstaklega til þess að árásin beindist að liggjandi manni, þegar hann var dæmdur, og er honum því gert að greiða 75 þúsund krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Geri hann það ekki þarf hann að sæta 6 daga fangelsi. Maðurinn var hinsvegar sýknaður af því að hafa sparkað í manninn.

Þá er honum einnig gert að greiða 90 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×