Innlent

Leitað eftir hugmyndum um þróun Þingvalla

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður, Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar og Ragna Árnadóttir , formaður dómnefndar.
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður, Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar og Ragna Árnadóttir , formaður dómnefndar.
Þingvallanefnd leitar eftir hugmyndum almennings um hvernig taka megi á móti þeim þúsundum Íslendinga og erlendra gesta sem á ári hverju vilja upplifa sérstöðu Þingvalla án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins.

Í tilkynningu segir að allir geti tekið þátt í hugmyndaleitinni sem stendur til 22. ágúst 2011 og verða veittar allt að fimm 200 þúsund króna viðurkenningar fyrir hugmyndir sem dómnefnd telur áhugaverðastar.

„Álfheiður Ingadóttur formaður Þingvallanefndar, Ragna Árnadóttir formaður dómnefndar um hugmyndaleitina og Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður kynntu hugmyndaleitina á fundi með blaðamönnum í dag," segir ennfremur en við það tækifæri var opnað sérstakt svæði á vef þjóðgarðsins þar sem er að finna nánari lýsingu á hugmynda-leitinni auk upplýsinga um fyrirkomulag og leikreglur.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum skipar stóran sess í huga íslensku þjóðarinnar. Um hann gilda sérstök lög og hann nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem menningarminjar á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Unnið er að undirbúningi að tilnefningu Þingvalla sem náttúruminja og sem hluta af raðtilnefningu miðaldarminja (víkingatímans) á heimsminjaskrána.

Ragna Árnadóttir, formaður dómnefndar, segir mikilvægt að almenningur taki þátt í að skilgreina hvaða hlutverki Þingvellir eigi að gegna í lífi okkar og samfélagi. „Við getum horft stolt til Þingvalla, einstakrar náttúru, sögunnar og menningarlegs hlutverks. Við skulum þó ekki veigra okkur við að spyrja: Erum við sátt við Þingvelli eins og þeir eru í dag? Má eitthvað betur fara? Hvað viljum við halda í og hvað má bæta? Hugmyndaleitin er gott tækifæri til að láta hugann reika og kynnast Þingvöllum frá nýjum sjónarhóli. Ræðum þetta í kaffiboðum, á heimilinu, vinnustaðnum og á mannamótum í sumar," segir Ragna.



Skilafrestur til 22. ágúst
Þeir sem taka þátt í leitinni eiga að skila hugmyndum sínum í Alþingishúsið merktum:

Hugmyndaleit

Alþingi - Skáli

Kirkjustræti

150 Reykjavík

Hugmyndum á að skila á venjulegum hvítum pappír á fleti sem samsvarar að hámarki 4 síðum af stærð A4 og eru þátttakendur hvattir til að lýsa hugmyndum sínum bæði í máli og myndum. Auðkenna á hugmyndirnar með númeri en nafn höfundar á að fylgja með í sérstöku umslagi til þess að nafnleyndar sé gætt. Hver þátttakandi getur skilað inn eins mörgum hugmyndum og hann vill en þá þarf að búa um hverja fyrir sig eins og þær kæmu hver frá sínum þátttakanda. Frestur til að skila inn hugmyndum er til klukkan 16:00 mánudaginn 22. ágúst 2011 og þurfa póstsendar hugmyndir að vera póststimplaðar í síðasta lagi þann dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×