Innlent

Bubbi Morthens endurheimti þýfi fyrir Hugleik

Hugleikur Dagsson er afar ánægður með Bubba og þjófinn sem skilaði honum margra mánaða starfi.
Hugleikur Dagsson er afar ánægður með Bubba og þjófinn sem skilaði honum margra mánaða starfi.
„Bubbi skipaði glæpónunum að senda þetta upp í Efstaleiti," segir rithöfundurinn Hugleikur Dagsson, sem endurheimti efnið sem var á tölvunni hans, en henni var stolið fyrir skömmu.

Þannig var það að tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens var í viðtali í þættinum Virkum morgnum á Rás 2 í gær. Þar hvatti hann „vini sína í undirheimunum" til þess að skila Hugleiki eigum hans.

„Og þeir virðast bara hafa hlýtt honum," segir Hugleikur.

Það var í morgun sem Gunna Dís, einn af stjórnendum þáttarins, kom í vinnuna. Þar beið hennar umslag sem innihélt harðann disk. Þjófurinn var búinn að afrita allt efnið á tölvu Hugleiks yfir á diskinn.

„Það var langmikilvægast að fá þetta til baka. Ég geri nú ekki ráð fyrir að fá flakkarann eða tölvuna sjálfa til baka," segir Hugleikur sem er að vonum gríðarlega þakklátur Bubba fyrir að hafa hvatt þjófinn til þess að skila efninu. Gunna Dís afhenti Hugleiki diskinn í morgun.

Spurður hvort Bubbi fái að birtast í einhverri teiknimyndasögunni hans Hugleiks að launum, svarar hann því til að Bubbi sé búinn að koma fram í sögunni um eineygða kisann.

Meðal þess sem Hugleikur endurheimti var handrit að hryllingsmynd sem hann langar til þess að koma á koppinn. Því er óhætt að segja að sumrinu sé bjargað hjá teiknimyndahöfundinum.

Hugleikur hefur þó ekki setið auðum höndum. Útgáfufélag hans, Ókeibæ-kur vinnur nú hörðum höndum að því að koma út ferðamannavísi fyrir þá sem festast í Vesturbæ Reykjavíkur með tryllta uppvakninga allt í kring.

Þá er einnig von á lífstílsbók eftir Hildi Knútsdóttur, sem Hugleikur segir að sé einstaklega fyndin manneskja.

„Þetta er allavega ein frumlegasta lífstílsbók sem ég hef lesið," segir hann um þennan unga og hæfileikaríka rithöfund sem er nýbúinn að senda frá sér skáldsöguna Sláttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×