Innlent

Rugl og vitleysa að við séum heimsmeistarar í rítalín neyslu

Valur Grettisson skrifar
Grétar Sigurbergsson geðlæknir.
Grétar Sigurbergsson geðlæknir.
„Það er slegið fyrir neðan beltisstað, vægast sagt," segir Grétar Sigurbergsson geðlæknir, og fyrrverandi yfirlæknir á réttargeðdeildinni á Sogni, um grein sem formaður SÁÁ, Gunnar Smári Egilsson, skrifaði og birti á vef samtakanna gær.

Í greininni líkir Gunnar Smári Grétari við mann sem selur snákaolíu og segir hann byggja vísindalegar niðurstöður sínar um athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) á hæpnum forsendum. Þá vitnar Gunnar í formann Læknafélags Íslands, sem sagðist ekki enn hafa séð sannanir þess að slík greining stæðist, eða að lyfjameðferð, byggða á slíkri greiningu, gerði gagn.

Þegar Grétar er spurður út í orð formanns Læknafélagsins, svarar hann: „Formaður Læknafélag Íslands hefur enga sérþekkingu á málinu."

Grétari finnst grein Gunnars Smára ómakleg og segir hana ritaða af fákunnáttu um málaflokkinn.

„Þetta virðist fyrst og fremst vera barátta um fjármagn fyrir SÁÁ," segir Grétar og bætir við að greinin kristalli sorglega litla þekkingu á málaflokknum, en hann heldur því fram að sjúkdómurinn sé oft orsakavaldur í vímuefnaneyslu ungs fólks.

Grétar segir að hann sé líklega sá læknir sem mest hafi rannsaka ADHD hér á landi og þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem hann verji málefnið. Honum finnst þó verst að þegar svona umræða kemur upp, bitnar hún verst á sjúklingunum.

„Það er litið á þá sem dópista," segir Grétar en umræðan er þungbær fyrir sjúklinga Grétars að hans sögn.

Það var greint frá því í fjölmiðlum í vikunni að Grétar ávísað mest allra lækna lyfseðla fyrir rítalíni hér á landi. Þegar hann er spurður hvort það sé ekki áhyggjuefni að Íslendingar séu heimsmeistarar í rítalín neyslu, segir hann það alrangt.

„Það er rugl og vitleysa um að við séum heimsmeistarar í rítalín neyslu. Sannleikurinn er sá að við erum mjög framarlega í meðhöndlun á ADHD," segir Grétar og bendir á að fyrir nokkrum árum síðan hafi Bandaríkin verið leiðandi í rítalín neyslu.

Það hefur breyst á síðustu árum, ekki vegna þess að Bandaríkjamenn séu hættir að nota amfetamínskyld efni til þess að takast á við vandann, heldur vegna þess að nýtt lyf, sem virðist virka betur en rítalín, er komið á markað þar í landi.

„Stóra fréttin er í raun sú að það er komið fram nýtt lyf sem tekur rítalíninu fram," segir Grétar. Hann segist alls ekki sammála því að neysla efnisins sé óhófleg á Íslandi, en þess bera að geta að þarna er ekki átt við ólöglega notkun á lyfinu.

Hann segir umræðuna einnig varhugaverða um málaflokkinn. „Það virðist alltaf sjálfsagt að ráðast á geðsjúka af minnsta tilefni," segir Grétar sem segist finna fyrir minnkandi stuðningi við málaflokkinn. Hann segir Landlæknaembættið hafa áður sýnt málefninu mikinn skilning, nú séu breyttir tíma og nýr Landlæknir sem situr við stjórnvölinn.

En um gagnrýni Gunnars Smára segir Grétar: „Þetta er varla svaravert. Það bylur hæst í tómri tunnu."

Grein Gunnars Smára má lesa hér. Hér má svo lesa grein sem Grétar skrifaði um ADHD.


Tengdar fréttir

Segir geðlækni kynna rítalín eins og snákaolíu

Nýkjörinn formaður SÁÁ, Gunnar Smári Egilsson, gagnrýnir geðlækninn Grétar Sigurbergsson, harðlega í grein sem hann skrifar á vef SÁÁ og ber yfirskriftina: Rítalín hneykslið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×