Innlent

Vilja að framlög ríkisins hækki um 30%

Þórsteinn Ragnarsson. Rétta verður hallarekstur kirkjugarða af segir formaður Kirkjugarðasambandsins. Mynd/Stefán
Þórsteinn Ragnarsson. Rétta verður hallarekstur kirkjugarða af segir formaður Kirkjugarðasambandsins. Mynd/Stefán
Stjórn Kirkjugarðasamband Íslands leggur til rúmlega 30 prósenta hækkun í fjárframlögum ríkisins á næstu tveim árum. Einingaverð verði uppfært samkvæmt samkomulagi frá árinu 2005 í tveimur áföngum með þeim hætti að framlag ríkisins næsta ár verði reiknað upp að fullu og síðan skert um þrjú prósent, líkt og boðað sé í fjárlögum þessa árs. Síðan tæki upprunalegi samningurinn gildi án skerðingar árið 2013.

 

Er þetta gert í ljósi bágrar fjárhagsstöðu kirkjugarða í landinu og segir Þórsteinn Ragnarsson, formaður Kirkjugarðasambandsins, ástandið farið að bitna á umhirðu garðanna, viðhaldi fasteigna, vélakaupum og færri sumarráðningum starfsfólks. Fjárþörf garðanna, sem eru 356 talsins, er talin vera um 1,1 milljarður króna, en miðað við fjárlög þessa árs veitir ríkið um 845 milljónir til kirkjugarða landsins.

 

„Málum var komið á góðan rekspöl árið 2005. Svo skera stjórnvöld alveg blindandi á framlögin eftir efnahagshrunið,“ segir Þórsteinn. „Það er verið að skera niður í starfsgrein sem var mjög vængbrotin fyrir.“

 

Aðalfundur sambandsins var haldinn á Húsavík um síðustu helgi og segir Þórsteinn þungt hljóð almennt hafa verið í fundarmönnum. Staðan sé þó misjöfn eftir görðum landsins, en víða séu mál orðin það slæm að erfitt sé að borga prestum og iðnaðarmönnum.

 

Stjórn sambandsins hefur nú sent bréf til iðnaðarráðuneytisins þar sem farið er fram á að framlög til garðanna verði hækkuð um 30 prósent á næstu tveim árum. Með því myndi upphaflegt samkomulag kirkjugarðanna og ríkisins frá árinu 2005 standa, en framlög hafa lækkað um rúm 10 prósent frá árinu 2008. Aftur á móti hefur dánartala Íslendinga hækkað úr 1.987 árið 2008 í 2.017 í fyrra. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×