Erlent

Forseti Jemen samþykkir að láta af völdum

HA skrifar
Ali Abdullah Saleh forseti Jemen. Mynd/ afp.
Ali Abdullah Saleh forseti Jemen. Mynd/ afp.
Forseti Jemens, Ali Abdullah Saleh, hefur fallist á að láta af völdum eftir rúmlega þrjátíu ára valdasetu til að koma á friði í landinu.

Forsetinn ákvað þetta eftir að Arabaríkin við Persaflóa komu að samningaviðræðum við hann og ríkisstjórn Jemens.  Öflug mótmæli hafa staðið yfir í Jemen í um tvo mánuði og hafa 120 týnt lífi í óeirðunum. Ein fjölmennustu mótmæli í landinu til þessa fóru fram síðastliðinn föstudag. Í samkomulaginu við Persaflóaríkin felst að hann láti af völdum eftir þrjátíu daga og varaforseti landsins taki við stjórnartaumum.

Líkleg ástæða fyrir því að forsetinn hefur fallist á þetta samkomulag er að hann mun njóta friðhelgi eftir að hann fer af valdastóli. Það þýðir að ekki verður hægt að sækja hann til saka fyrir meinta spillingu í embætti.  Forsetanum verður gert að skipa leiðtoga úr stjórnarandstöðuflokkunum til að stýra bráðabirgðarríkisstjórn sem hafi það verkefni að undirbúa forsetakosningar í landinu á næstu mánuðum. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa fagnað ákvörðun forsetans en lýstu því yfir að þeir ætli ekki að fallast á að forsetinn og fjölskylda hans njóti friðhelgi.     




Fleiri fréttir

Sjá meira


×