Lífið

Spennandi plötur á nýju ári

Fjölmargar hljómsveitir og listamenn hafa þegar tilkynnt um plötur sem koma út á árinu. Atli Fannar Bjarkason skoðaði sex væntanlegar plötur sem eiga eftir að vekja eftirtekt.



The Strokes - ónefnd

Útgáfudagur: 11. mars

Fylgir eftir: First Impressions of Earth (2006)


Aðdáendur The Strokes bíða með mikilli eftirvæntingu eftir fjórðu plötu hljómsveitarinnar. Vinna við plötuna hófst í janúar árið 2009 þegar söngvarinn Julian Casablancas og gítarleikarinn Nick Valensi hittust til að semja lög. Ýmislegt hefur gengið á síðan og hljómsveitin fékk upptökustjórann Joe Chicarelli, sem hefur meðal annars unnið með Beck og U2. Hljómsveitin ætlar nýjar leiðir á plötunni og hefur lýst tónlistinni sem blöndu af rokki frá áttunda áratugnum og einhvers konar framtíðartónlist. Platan var tilbúin í nóvember, en kemur þrátt fyrir það ekki út fyrr en í mars.



Coldplay - ónefnd

Útgáfudagur: Óvíst

Fylgir eftir: Viva La Vida or Death and All His Friends (2008)


Coldplay vinnur nú að fimmtu plötunni sinni ásamt tónlistarmanninum Brian Eno. Í desember árið 2009 var sagt frá því að upptökur stæðu fyrir dyrum í kirkju í London, en þær hafa færst yfir í nýtt hljóðver hljómsveitarinnar. Platan ku vera minna rafmögnuð en síðasta plata og hljóma almennt allt öðruvísi en sú.



White Lies - Ritual

Útgáfudagur: 17. janúar

Fylgir eftir: To Lose My Life... (2009)


Hljómsveitin White Lies náði talsverðum vinsældum í kjölfar útgáfu To Lose My Life.... sem kom út árið 2009. Hljómsveitin er undir áhrifum frá Joy Division og yngri hljómsveitum á borð við Editors og Interpol. Miðað við lagið Bigger Than Us, sem er það fyrsta sem heyrðist af nýju plötunni, er von á meira af því sama á plötunni Ritual.

Beady Eye - Different Gear, Still Speeding

Útgáfudagur: 28. febrúar

Fylgir eftir: Ferli Oasis


Beady Eye varð til þegar Oasis-bræðurnir Noel og Liam Gallagher hættu að geta unnið saman. Liam Gallagher leiðir hljómsveitina, sem er tilbúin með risavaxna 15 laga plötu. Gallagher segir hana innihalda lög sem eru jafn góð eða betri en lögin á Definitely Maybe-plötu Oasis. Búast má við hreinræktuðu britpoppi frá mönnum sem kunna leikinn.

Lil Wayne - Tha Carter IV

Útgáfudagur: Febrúar

Fylgir eftir: Rebirth (2010)


Lil Wayne er einn allra afkastamesti tónlistar­maður heims um þessar mundir. Hann gaf út tvær plötur í fyrra og hefur gefið út átta plötur á tíu árum. Hann byrjaði á Tha Carter IV þegar hann losnaði úr fangelsi í nóvember og gaf aðeins mánuði síðar út fyrstu smáskífuna sem verður á nýju plötunni, 6 Foot 7 Foot. Lagið er sagt vera eins og smellurinn A Milli á sterum.

Lady Gaga - Born This Way

Útgáfudagur: Mars/apríl

Fylgir eftir: The Fame Monster (2009)


Lady Gaga varð á skömmum tíma ein allra vinsælasta söngkona heims. Hún hefur látið hafa eftir sér að nýja platan verði „plata áratugarins" og hún muni innihalda allt að 20 lög. Lady Gaga hefur flutt tvö lög af plötunni á tónleikaferðum sínum um heiminn; You and I og Born This Way. Elton John segir það síðarnefnda vera hið nýja I Will Survive og taka við sem þjóðsöngur samkynhneigðra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.