Innlent

Stal hundruðum lítra af díselolíu

Þorlákshöfn
Þorlákshöfn Mynd/Einar Elíasson
Aðfaranótt fimmtudagsins 16. júní síðastliðinn voru unnin skemmdarverk á stórri hjólaskóflu í sandnámu í landi Hrauns í Ölfusi. Allar rúður hjólaskóflunnar voru brotnar og reynt hafði verið að gangsetja hana. Jafnframt var útvarpstæki úr vinnuvélinni stolið. Ljóst er að tjónið er mikið í krónum talið.

Sömu nótt var nokkrum hundraðum lítra af dísilolíu stolið af tveimur vörubifeiðum Jarðefnaiðnaðar í Þorlákshöfn.  Vörubifreiðarnar stóðu á athafnasvæði fyrirtækisins við Nesbraut í Þorlákshöfn.

Um hvítasunnuhelgina var verðmætu sláttuorfi stolið úr læstum verkfærakassa sveitarfélagsins Árborgar í Nauthólum á Selfossi. Sláttuorfið er af gerðinni Husqvarna 235R appelsínugult að lit.

Þeir sem veitt geta upplýsingar um þessi mál eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010. 

Um hádegi í gær, sunnudag, kom upp eldur í kjarri við Þjónustumiðstöðina í Þingvallaþjóðgarðinum, Eldurinn mun hafa kviknað út frá grillkolum.

Starfsmenn þjóðgarðsins réðu ekki við eldinn og kölluðu sér til aðstoðar slökkvilið frá Brunavörnum Árnessýslu sem réðu niðurlögum eldsins. 

Fyrr í vikunni var slökkvilið sent að Reykjanesi í Grímsnesi vegna sinuelds.  Líkur eru á að hann hafi kviknað út frá glóð úr reykjarpípu eftir að maður hafði slegið úr henni yfir spítnabraki þar sem undir leyndist sina.

Af þessum tilefnum er rétt að brýna fyrir fólki að fara gætilega með eld og grillkol úti í náttúrunni. 

Í vikunni hafa 28 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.  Einn þeirra mældist á 154 km hraða á Hellisheiði um kl. 21 í gærkvöldi þegar talsverð umferð var þar eða um það bil 100 ökutæki á 10 mínútum.

Flestir sem voru kærðir óku um Suðurlandsveg aðrir voru á Biskupstungnabraut, Laugarvatnsvegi, Þingvallavegi og Þrengslavegi.

Tveir voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×