Viðskipti erlent

Grikkir fá ekkert frá evruþjóðunum í bili

Þúsundir hafa mótmælt niðurskurðaráætlunum grísku ríkisstjórnarinnar.
Þúsundir hafa mótmælt niðurskurðaráætlunum grísku ríkisstjórnarinnar.
Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa frestað ákvörðun sinni um frekari lánveitingar til handa Grikkjum. Evran lækkaði á mörkuðum í Asíu í morgun við þessi tíðindi en búist hafði verið við ákvörðuninni um helgina. Þess í stað tilkynntu ráðherrarnir að ekkert verði af frekari lánveitingum fyrr en Grikkir ákveði um frekari niðurskurð.

Til stóð að Grikkir fengju um 12 milljarða evra að láni í þetta skiptið en gríska þingið á enn eftir að samþykkja um 28 milljarða evra niðurskurðaráætlun áður en til þess getur komið. Jean Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxembúrgar, sem fer fyrir fundahöldum ráðherranna segist viss um að Grikkir fái á endanum lánið, svo lengi sem gríska þingið samþykki niðurskurðartillögurnar. Búist er við því að þessi hluti lánsins, sem í heild telur 110 milljarða evra, verði afgreitt um miðjan næsta mánuð. Grikkir segjast hinsvegar verða að fá lánið strax um mánaðarmótin. Að öðrum kosti gæti landið orðið gjaldþrota.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×