Innlent

Vilja breytingar á vinnufyrirkomulagi

Flugmenn Icelandair hafa boðað yfirvinnubann frá og með föstudeginum, hafi samningar ekki tekist í millitíðinni. Fréttablaðið/valli
Flugmenn Icelandair hafa boðað yfirvinnubann frá og með föstudeginum, hafi samningar ekki tekist í millitíðinni. Fréttablaðið/valli
Samningafundur milli Icelandair og Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) í gær skilaði ekki árangri og stendur því enn boðað yfirvinnubann FÍA sem hefst næstkomandi föstudag. Næsti fundur verður sennilega á morgun.

Í tilkynningu frá Icelandair er lýst yfir vonbrigðum með aðgerðir FÍH þrátt fyrir að fyrirtækið hafi boðið flugmönnum sínum sambærilegar hækkanir og aðrir launþegahópar hafa fengið að undanförnu. Þar segir einnig að flug og ferðaþjónusta séu afar viðkvæm fyrir umræðu um röskun á ferðum, nú á háannatíma, og vonast fyrirtækið til þess að samningar náist án truflana.

Hafsteinn Pálsson, formaður stjórnar FÍH, segir í samtali við Fréttablaðið að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi en hann telji ekki mikið bera á milli aðila. Varðandi kröfur flugmanna segir Hafsteinn að málið snúist ekki alfarið um prósentu- eða krónutöluhækkanir sem slíkar.

„Það er verið að vinna í ýmsum málum tengdum vinnufyrirkomulagi flugmanna og öðru sem miður hefur farið á síðustu misserum.“

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×