Fremsta körfuboltakona landsins, Helena Sverrisdóttir, hefur skrifað undir samning við Hauka um að taka að sér þjálfun efnilegustu stúlkna Hauka í sumar ásamt að þjálfa á sumaræfingum Hauka. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Helena hefur nýlokið frábærum háskólaferli með TCU og er á leiðinni í atvinnumennsku næsta vetur með slóvakíska Euroleague-liðinu Dobri Anjeli Kosice.
Helena Sverrisdóttir mun verða með hóp átta til tíu efnilegustu stelpna Hauka í sérþjálfunarbúðum í sumar en þar eru stelpur frá ellefu ára upp í tvítugt sem munu fá tækniþjálfun hver fyrir sig í þeim atriðum sem þær þurfa helst að bæta sig.
Helena mun líka koma að styrktar- og séræfingum fyrir leikmenn Hauka í sumar en sumaræfingarnar verða fyrir stelpur og stráka í 7.flokki karla og kvenna og upp í drengja- og stúlknaflokk.
