Íslenski boltinn

Kristinn: Bannað að hlæja að óvitum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristinn Steindórsson skoraði eitt mark í 4-1 sigrinum á Þór í Kópavogi í dag. Hann hélt sér heitum í hálfleik meðan aðrir leikmenn liðsins fóru inn í klefa líkt og venjan er.

Þrátt fyrir 4-1 sigur var leikurinn í járnum lengi vel og alls ekki auðveldur sigur fyrir Blika.

„Nei, en samt fannst mér þetta aldrei í hættu. Þeir gefast aldrei upp og við þurftum að hafa fyrir þessu. En við skorum fjögur mörk og þeir eitt. Þetta var sanngjarnt,“ sagði Kristinn.

Kristinn átti fjöldan allan af marktilraunum í fyrri hálfleik en boltinn vildi ekki inn.

„Já þetta var ekki að detta inn til þess að byrja með. En ég setti þetta eina mark og ég er sáttur við það. Dylan skoraði líka þannig að það er ánægjulegt.“

Kristinn hélt sér heitum og skokkaði í hálfleik meðan aðrir leikmenn liðsins fóru inn í klefa.

„Maður er bara að halda sér heitum. Ég hef fundið aðeins til og ég vildi halda mér gangandi svo ég myndi ekki stífna upp,“ sagði Kristinn.

Finnur Orri Margeirsson og Guðmundur Kristjánsson sáu til þess að leikmenn Blika sem fóru í viðtöl væru með asnaleg gleraugu.

„Þetta eru vitleysingar. Þeir eru að reyna að trufla mann sama hvað maður er að gera. Það verður að hafa það. Bannað að hlæja að óvitum,“ sagði Kristinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×