Innlent

Síbrotamaður dæmdur í níu mánaða fangelsi

Mynd úr safni/GVA
Mynd úr safni/GVA
Karlmaður var dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir ýmis hegningar- og umferðarlagabrot og þá var hann sviptur ökuréttindum ævilangt.

Á meðal þess sem maðurinn var dæmdur fyrir var að hafa brotist inn í verslunina Tal við Suðurlandsbraut, í félagi við annan mann, og stolið þaðan fartölvu. Fyrir að keyra bifreið, ökuréttindalaus, á 120 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er leyfilegur 90 kílómetrar á klukkustund. Þegar lögregla stöðvaði hann gaf hann upp nafn og kennitölu á öðrum manni og sagði það vera sitt eigið.

Þá var maðurinn einnig dæmdur fyrir að stela, í félagi við annan mann, bensíni, keyra stolinni bifreið undir áhrifum amfetamíns, stela raftækjum fyrir rúmlega tvær milljónir króna, stela bílnúmerum af bílum og festa á aðra bifreið. Hann var einnig dæmdur fyrir að hafa brotist inn í læstar kennslustofur í Snælandsskóla við Víðigrund í Kópavogi, með því að spenna upp hurðir og stolið þaðan farsíma að verðmæti 24 þúsund krónum og 20 þúsund krónum í reiðufé.

Þá braust hann inn á bílasölur og stal þaðan kveikjuláslyklum.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dóminum og lítur dómari til þess að hann kom til lögreglu og játaði að eigin frumkvæði hluta brotanna. Hann var dæmdur fyrir þjófnað árið 2003 og árið 2007 fyrir brot gegn hegningarlögum. Árið 2009 var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir auðgunar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot og árið 2010 var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir margvísleg hegningarlagabrot gegn umferðar- og fíkniefnalögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×