Innlent

Stefnir DV - vill fimm milljónir í miskabætur

Jón Snorri Snorrason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur ákveðið að stefna DV vegna frétta blaðsins af gjaldþroti Siguplasts, þar sem Jón var stjórnarformaður. Blaðið hélt því meðal annars fram að Jón sætti lögreglurannsókn en hann segist hafa það staðfest frá ríkislögreglustjóra að það sé ekki rétt.

Jón segir að DV hafi vegið að starfsheiðri sínum með grófum ærumeiðingum og krefst fimm milljóna í miskabætur.

„Á forsíðu DV síðastliðinn mánudag var því ranglega haldið fram að Jón Snorri sætti rannsókn lögreglu í tengslum við gjaldþrot Sigurplasts, en Jón var þar stjórnarformaður. Ríkislögreglustjóri hefur staðfest að engin rannsókn standi yfir á hendur Jóni Snorra,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Jóni Snorra.

„Umfjöllun DV um Jón Snorra var sett fram með afar meinfýsnum hætti,“ segir ennfremur. „Því var slegið upp með stríðsletri og mynd af Jóni á forsíðu blaðsins að lögregla væri að rannsaka hann sem lektor. Tilgreint var sérstaklega að hann væri lektor í viðskiptafræðum sem hefði haft umsjón með MBA námi háskólans.  Eins og nærri má geta hefur þessi fréttaflutningur skaðleg áhrif á starfsheiður og æru Jóns Snorra.“

Þá segir að Tryggvi Agnarsson, lögmaður Jóns Snorra, hafi gefið Reyni Traustasyni ritstjóra DV færi á að að bæta úr „með því að draga ósannindin til baka,“ en Reynir er sagður hafa hafnað því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×