Innlent

Óttast mengun frá olíuleit við Jan Mayen

Umhverfisstofnun Noregs hefur lýst áhyggjum vegna fyrirhugaðrar olíuleitar við Jan Mayen. Stofnunin, sem þar kallast Loftlags- og mengunarstofnunin, óttast helst að viðbúnaður vegna bráðamengunar verði ekki nægilega öflugur.

Hún bendir á fjölskrúðugt sjófuglalíf við Jan Mayen og að hafið umhverfis eyna sé auðugt af fiskistofnum. Olíuboranir séu fyrirhugaðar í aðeins 30 kílómetra fjarlægð frá eynni og hætta sé á að jafnvel lítill olíuleki geti haft veruleg áhrif á dýralíf og viðkvæma náttúru svæðisins.

Við slíkar aðstæður yrði erfitt að nýta þann viðbúnað sem til er á meginlandi Noregs þar sem það tæki nokkra daga að koma honum á vettvang ef mengunarslys yrði. Telur stofnunin því mikilvægt að kannað verði til hlýtar hvaða lausnir kæmu til greina til að mæta hættu á bráðamengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×