Innlent

Samþykktu risahöfn og alþjóðaflugvöll á Langanesi

Frá Bakkafirði
Frá Bakkafirði
Nýtt aðalskipulag, sem gerir ráð fyrir risahöfn í Gunnólfsvík og alþjóðaflugvelli á Langanesi, var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar á Þórshöfn í gærkvöldi. Fimm hreppsnefndarmenn samþykktu nýja aðalskipulagið í heild sinni en tveir greiddu atkvæði á móti, að sögn Gunnólfs Lárussonar sveitarstjóra.

Höfnin í gunnólfsvík.
Stórskipahöfnin, sem yrði sú langstærsta á Íslandi, er hugsuð til að mæta þörfum siglinga í framtíðinni yfir Norðurskautið og er gert ráð fyrir allt að tíu kílómetra löngum viðleguköntum. Skipulagið gerir jafnframt ráð fyrir stórum iðnaðarlóðum á hafnarsvæðinu, undir olíu- og gasvinnslustöðvar, sem heimamenn sjá fyrir sér að risið gætu í tengslum við olíuvinnslu á Drekasvæðinu og við Grænland.

Nýja aðalskipulagið gerir ráð fyrir að í stað einnar 1.200 metra langra flugbrautar við Þórshöfn yrðu þar tvær 2.200 metra langar brautir, en þannig yrði þetta næst stærsti flugvöllur á Íslandi, á eftir Keflavíkurflugvelli. Þá er gert ráð fyrir að á flugvellinum verði flugskýli fyrir þyrluþjónustu vegna olíuborpalla.

Fjórar athugasemdir bárust vegna skipulagsins. Það verður nú sent Skipulagsstofnun og þaðan til umhverfisráðherra til staðfestingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×